Viðskipti erlent

Apple hefur selt 370 þúsund iphone á dag í hálft ár

Magnús Halldórsson skrifar
Hugbúnaðar-, tölvu- og fjarskiptarisinn Apple hefur átt ótrúlegri velgengni að fagna undanfarna tvo ársfjórðunga, samkvæmt opinberum rekstrarupplýsingum sem fyrirtækið hefur birt. Mestu munar um sölutekjur af iphone-símunum og ipad-spjaldtölvunum. Í rekstrartölum fyrir síðasta ársfjórðung ársins 2011, sem tekur til fjórtán vikna rekstrartímabils sem lauk um síðustu áramót, seldust 37 milljónir iphone-síma en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs seldust 35 milljónir iphone-síma. Salan jafngildir því að 370 þúsund iphone-símar hafi selst á hverjum degi á þessu ríflega hálfs árs rekstrartímabili (196 dagar) í sögu fyrirtækisins.

Gríðarlegur vöxtur

Svipaða sögu er að segja af ipad-spjaldtölvunum, en á síðasta ársfjórðungi síðasta árs seldust 15,4 milljónir spjaldtölva og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 11,8 milljónir. Það jafngildir því að tæplega 140 þúsund ipad-spjaldtölvur hafi selst á hverjum degi á fyrrnefndu rekstrartímabili.

Vöxturinn á milli ára gríðarlega hraður í þessum tveimur vöruflokkum, en aukningin milli ársfjórðunga þegar kemur að ipad-spjaldtölvum var ríflega 150 prósent og aukningin var 88 prósent hjá iphone-unum.

Eignir aukast hratt

Eignastaða Apple hefur styrkst jafnt og þétt samhliða þessari ótrúlegu velgengni iphone og ipad. Þannig námu heildareignir Apple í lok árs í fyrra 150 milljörðum dala, eða sem nemur 18.750 milljörðum króna. Skuldir, að langstærstu leyti viðskiptakröfur, námu í heild 48 milljörðum dala, eða sem nemur um sex þúsund milljörðum króna. Eignastaða Apple jókst á þremur mánuðum úr 116 milljörðum dala, 24. september 2011 í 150 milljarða dala, 31. desember 2011. Það er mesti vöxtur í sögu Apple, og hraðasti vöxtur eigna hjá fyrirtæki af þessari stærðargráðu í sögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×