Viðskipti erlent

Galaxy S III: 9 milljón eintök seld í forpöntunum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Samsung Galaxy S III, nýjasti snjallsími Samsung, virðist ætla að slá öll met en um 9 milljón eintök af honum hafa selst í forpöntunum. Galaxy snjallsímarnir eru vinsælustu vörur Samsung en fyrirtækið er nú þegar stærsti snjallsímaframleiðandi veraldar.

Samsung svipti hulunni af snjallsímanum í Lundúnum fyrr í þessum mánuði. Galaxy S III er knúinn af Exynos 4 Quad örgjörvasamstæðunni en þessi nýstárlega tækni bíður upp á mun meiri vinnsluhraða en áður var hægt. Þá stuðlar örgjörvinn einnig að margfalt betri orkunýtingu.

Snertiskjár símans er 4.8 tommur og er hann því nokkuð stærri en á forverum sínum, ásamt því að vera einn stærsti snertiskjár í gjörvallri flóru snjallsíma. Upplausn skjásins er 720 x 1280 og mun hann styðja háskerpu afspilun.

Galaxy S III er knúinn af Exynos 4 Quad örgjörvasamstæðunni.mynd/AP
En þessi mikla eftirspurn eftir Galaxy S III er ekki aðeins jákvæð fyrir Samsung — hún styrkir einnig stöðu Android-stýrikerfisins á snjallsímamarkaðinum. Rúmur helmingur allra snjallsíma notast við Android en það er framleitt af tæknirisanum Google.

Samsung vinnur nú hörðum höndum við að framleiða símana. Talið er að verksmiðjur fyrirtækisins framleiði nú um 5 milljón eintök af Galaxy S III á mánuði.

Hægt er að sjá kynningarmyndband fyrir Samsung Galaxy S III hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×