Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á olíu hríðfellur

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið síðasta sólarhringinn og er nú komið á svipaðar slóðir og skömmu eftir áramótin.

Tunnan af Brent olíunni er komin niður í 116 dollara og hefur verð hennar ekki verið lægra síðan í febrúar í ár. Verðið hefur fallið um 2% síðan í gær en nefna má að um tíma í mars var verðið á tunnunni komið yfir 128 dollara. Miðað við það hámark er lækkunin nærri 10%.

Mikill þrýstingur skapaðist á olíuverð á heimsmörkuðum eftir hefðbundinn fund bankastjórnar evrópska seðlabankans síðdegis í gær. Þar sagði Mario Draghi seðlabankastjóri að stýrivaxtahækkun hefði ekki verið til umræðu, bankinn myndi ekki dæla meiru af lánsfé út á markaðinn í bili og að óvissa ríkti um útlitið í efnahagsmálum evru svæðisins.

Um leið og þessi orð Draghi fóru í loftið byrjaði olíuverðið að falla mjög hratt því markaðurinn býst nú við minni eftirspurn eftir olíu í Evrópu þar sem efnahagur álfunnar er bersýnilega ekki að rétta mikið úr kútnum á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×