Viðskipti erlent

Íslenskur hugbúnaður valinn fyrir De Bazaar

Stærsti innanhússmarkaður Evrópu, De Bazaar, hefur valið hugbúnað frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail til að halda utan um allan rekstur markaðarins og til endurbæta greiðsluferla sína enn frekar en orðið var.

Í tilkynningu segir að markaðurinn, sem staðsettur er í Beverwijk í Hollandi, var stofnaður 1980 og varð fljótt mjög vinsæll. Þar geta seljendur boðið vöru sína á gólfi, í sölubás eða verslun. Leigutími sölusvæða getur verið mislangur, einn dagur, vika eða lengri tími. De Bazaar býður einnig upp á árskort fyrir seljendur sem vilja tryggja sér sama svæði um hverja helgi.

Hollenska fyrirtækið K3 Business Solutions mun sjá um tæknimálin fyrir De Bazaar vegna uppsetningar LS Retail kerfisins. K3 hefur aðstoðað verslunarfyrirtæki víða um heim við hagræðingu varðandi greiðsluferla og nú er röðin komin að De Bazaar. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Qurius Nederland BV.

Richard Hulshof, yfirkerfisstjóri hjá De Bazaar segir að fyrirtækið hafi vandað mjög til valsins og skoðað alla möguleika sem bjóðast á markaði. Íslenski hugbúnaðurinn hafi á endanum verið sá sem hentaði starfseminni best. „LS Retail POS kassalausnin smellpassar við markmið okkar um samræmingu og skilvirkni," segir Hulshof.

De Bazaar samanstendur í raun af mörgum mörkuðum. Auk hins kunna „Zwarte" Markt er þarna að finna Oosterse Markt, Grand Bazaar, tölvumarkað, Hal 30 og útimarkaðssvæði með samtals 2.500 bása. Gestir eru að jafnaði rúmlega 50.000 í viku hverri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×