Viðskipti erlent

Ný höfn í Nuuk fyrir gámaskip og olíuleit

Höfnin í Nuuk þykir of lítil til að þjóna olíuleit og gámaflutningum
Höfnin í Nuuk þykir of lítil til að þjóna olíuleit og gámaflutningum
Gerð nýrrar stórskipahafnar fyrir Nuuk, höfuðstað Grænlands, er nú í undirbúningi og er markmiðið að hún verði tilbúin á árinu 2014. Kostnaður við hafnargerðina er áætlaður um 500 milljónir danskra króna, eða sem nemur um 11 milljörðum íslenskra króna.

Núverandi höfn þykir of lítil og er talin flöskuháls fyrir vöruflutninga til Vestur-Grænlands. Nýja höfnin verður byggð á eyju við Nuuk. Henni er bæði ætlað að vera gámahöfn en einnig þjónustuhöfn fyrir olíuleit.

Stefnt er að því að sérstakt félag annist gerð og rekstur hafnarinnar, sem er nýbreytni, og að félagið verði í eigu fjögurra aðila; ríkisstjórnar Grænlands, bæjarfélagsins Sermersooq, skipafélagsins Royal Arctic Line og Álaborgarhafnar í Danmörku.

Nýleg breyting sem þjóðþing Danmerkur gerði á dönsku hafnalögunum heimilar dönskum höfnum að fjárfesta í höfnum annarra sveitarfélaga og er forsenda þess að Álaborgarhöfn getur tekið þátt í verkefninu.

Claus Holstein, hafnarstjóri Álaborgar, segir í viðtali við grænlenska fréttavefinn Sermitsiaq, að hann telji Grænland standa frammi fyrir miklum hagvexti og stórum fjárfestingum í olíu og málmleit. Því sé mikilvægt að Grænland hafi getu til að takast á við þá þróun, segir Claus Holstein.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×