Viðskipti erlent

IKEA ryður sér til rúms á raftækjamarkaðinum

Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA ætlar að ryðja sér til rúms á raftækjamarkaðinum. Fyrirtækið mun hefja sölu á háskerpu sjónvarpi í júní á þessu ári.

Sjónvarpið er kallað UPPLEVA og er framleitt í samstarfi við kínverska raftækjarisann TCL Multimedia.

Tækið mun búa yfir innbyggðum DVD og BlueRay spilara sem og þráðlausu hátalarakerfi.

Sjónvarpið fer í sölu í fimm borgum í Evrópu í júní en verður komið í almenna sölu um miðbik næsta árs.

„Þetta er afar stórt skref fyrir okkur," sagði Magnús Bondesson, hönnuður hjá IKEA. „Við erum fyrsta fyrirtækið sem reynir þetta."

Magnús segir að sjónvarpið hafi verið hannað til að fela þá óreiðu sem fylgir snúrum og fjarstýringum.

„Þetta er algjörlega ný hugmynd. Viðskiptavinir IKEA munu geta keypt húsgögn sín og raftæki í einni búðarferð."

Samkvæmt sölustjóra IKEA, Tolgu Oncu, mun sjónvarpið kosta 6.500 sænskar krónur eða um 124 þúsund íslenskar krónu.

Hægt er að sjá kynningarmyndband sem IKEA gerði fyrir sjónvarpið hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×