Viðskipti erlent

Afskrifa 662 milljónir evra af skuldum Grikklands

Societe Generale.
Societe Generale.
Franski bankinn Societe Generale (SG) þarf að afskrifa sem nemur 662 milljónum evra, um 107 milljarða króna, vegna efnahagsvanda Grikklands. Afskriftin þykir hærri en reiknað var með áður en uppgjör bankans fyrir síðasta fjórðung ársins í fyrra var gert opinbert í morgun, að því er fram kemur á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC.

SG hagnaðist um 100 milljónir evra á síðasta fjórðungi síðasta árs. Hagnaðurinn dróst saman um næstum 90 prósent milli ára, að mestu vegna afskrifta skulda Grikklands.

Þess er enn beðið að Grikkland fái 130 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en áætlun um endurskipulagningu ríkisfjármála landsins hefur þegar verið samþykkt af gríska þinginu. Henni hefur hins vegar ekki verið hrint í framkvæmd enn.

Búist er við því að um helmingur skulda Grikklands verði afskrifaður samhliða endurskipulagningu ríkisfjármálanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×