Viðskipti erlent

Deutsche Bank afskrifar 66 milljarða vegna Actavis

Deutsche Bank hefur afskrifað 407 milljónir evra eða um 66 milljarða króna vegna Actavis í bókum sínum en bankinn yfirtók að mestu eignarhaldið að félaginu fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þetta er mun hærri upphæð en bankinn hefur þurft að afskrifa vegna grískra ríkisskuldabréfa.

Þetta kemur fram á Bloombergfréttaveitunni þar sem rætt er um uppgjör Deutsche Bank fyrir fjórða ársfjórðung á síðasta ári. Hagnaður bankans dróst saman um 76% miðað við sama tímabil árið áður og má rekja þessa minnkun á hagnaði að stórum hluta til afskrifta, eða virðisrýrnunar, vegna eignarhaldsins á Actavis.

Fram kemur að fyrir utan afskriftina vegna Actavis þurfti Deutsche Bank að afskrifa 144 milljónir evra vegna grískra ríkisskuldabréfa, 97 milljónir evra vegna BHF bankans og 135 milljónir evra vegna spilavítis í Las Vegas.

Hagnaður bankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs varð 147 milljónir evra en til samanburðar nam hann 601 milljón evra á sama tímabili árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×