Viðskipti erlent

Formaður bankastjórnar seðlabanka sakaður um gjaldeyrisbrask

Philipp Hildebrand formaður bankastjórnar Seðlabanka Sviss hefur verið ásakaður um að hafa hagnast töluvert á gjaldeyrisbraski.

Braskið átti sér stað skömmu áður en seðlabankinn tilkynnti um umfangsmiklar aðgerðir sínar til að veikja gengi svissneska frankans á seinnihluta síðasta árs.

Í umfjöllun vikuritsins Weltwoche segir að Hildebrand hafi hagnast um 75.000 franka eða tæplega 10 milljónir króna á viðskiptum með dollara í október s.l. Hildebrand hefur ekki svarað þessum ásökunum en von er á yfirlýsingu frá honum í dag um málið.

Weltwoche styðjst meðal annars við vitnisburð frá starfsmanni Bank Sarasin þar sem Hildebrand er með reikning. Fram kemur að Kashya eiginkona Hildebrand hafi einnig stundað umfangsmikið gjaldeyrisbrask í gegnum þennan reikning en hún er eigandi listagallerís í Zurich.

Í umfjöllun New York Times um málið segir að innra eftirlit seðlabankans hafi, með aðstoð PricewaterhouseCoopers, rannsakað það sem kallað var „orðrómur" um gjaldeyrisbrask Hildebrand og fjölskyldu hans. Ekki hafi komið í ljós nein brot á starfsreglum bankans.

Hildebrand er umdeildur í Sviss en hann hefur staðið fyrir hertari reglum um starfsemi tveggja stærstu banka landsins, það er UBS og Credit Suisse. Þá er hann einn af höfundum að regluverkinu Basel III sem takmarkar skuldsetningar banka og setur þeim strangari reglur um áhættustjórnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×