Viðskipti erlent

Grikkland þarf meiri aðstoð

Giorgos Papakonstantinou
Giorgos Papakonstantinou
Embættismönnum virtist í gær hafa tekist að sannfæra fjárfesta um að Grikkir ætluðu ekki að yfirgefa evrusvæðið. Í það minnsta komst kyrrð á gengi evrunnar eftir umrót sem stafaði af ótta við afdrif Grikklands.

Ljóst er hins vegar orðið að Grikkland þarf að biðja um frekari fjárhagsaðstoð, annað hvort meira lánsfé eða hagstæðari vaxtakjör á 110 milljarða evra láni sem Grikkir fengu á síðasta ári úr neyðarsjóði Evrópusambandsins og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

„Við teljum að Grikkir þurfi frekara aðlögunarkerfi,“ sagði Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, að loknum fundi með fjármálaráðherrum Grikklands, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu á föstudagskvöld. Juncker er talsmaður evruríkjanna innan Evrópusambandsins, en einnig sátu fundinn þeir Olli Rehn, peningamálastjóri ESB, og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri ESB.

Að loknum fundinum sögðu ráðamenn Evrópusambandsins ekkert hæft í fullyrðingum þýska tímaritsins Spiegel um að grísk stjórnvöld stefndu á að taka upp drökmuna aftur en kasta evrunni.

Giorgos Papakonstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, sagði Grikki hins vegar standa í því núna að finna leiðir til þess að lifa af næstu tvö árin, meðan markaðir virtust ætla að verða þeim að mestu lokaðir. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×