Viðskipti erlent

40 bankar úr leik

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kauphöllin í New York. Mynd/ JHH.
Kauphöllin í New York. Mynd/ JHH.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa svipt 40 banka í landinu starfsleyfi það sem af er ári. Engu að síður virðist færri bankastofnunum hafa verið lokað það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Á þessum tíma í fyrra hafði 68 bönkum nefnilega verið lokað.

Litlum banka við Cocoa ströndina í Flórída var lokað á föstudaginn. Eignir bankans námu 129 milljónum bandaríkjadala, tæpum 15 milljörðum króna, og innistæður námu tæpum 124 milljónum dala, eða rúmum 14 milljörðum.

Premier American Bank, í Miami í Flórída, tók yfir innistæðurnar og keypti eignir bankans. Bankinn samþykkti einnig að taka yfir skuldir bankans á móti tryggingasjóði innistæðueigenda. Flórída hefur orðið illa úti í bankakreppunni í Bandaríkjunum. 29 bönkum var lokað í fylkinu í fyrra og það sem af er ári hefur 5 bönkum verið lokað þar nú þegar, eftir því sem AP fréttastofan fullyrðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×