Viðskipti erlent

Tískuhús vill kaupa gjaldþrota banka

Hlutabréf í eignarhaldsfélaginu Holdingselskabet af 1958 hafa átt rjómadag í kauphöllinni í Kaupmannahöfn en þau hafa hækkað um 150% í verði frá því í morgun. Ástæðan er að tískuhúsið DK Company vill kaupa eina af eignum félagsins sem er hinn gjaldþrota banki Bonusbanken.

Í frétt af málinu í Berlingske Tidende segir að DK Company hafi alls ekki áhuga á því að fara út í bankarekstur. Hinsvegar vilji tískuhúsið eignast kauphallarskráningu Bonusbanken, sem enn er í gildi, og losna þannig við þann háa kostnað sem fylgir skráningu á markað í Danmörku. Hinsvegar hefur Vestjysk Bank fyrir löngu keypt bankastarfsemi Bonusbanken.

DK Company hefur boðið Holdingselskabet af 1958 að kaupa Bonusbanken fyrir 10 milljónir danskra kr. eða tæplega 220 milljónir kr. Þetta olli því að hlutir í félaginu hækkuðu úr 10 aurum dönskum og upp í 25 aura í dag.

DK Company er með 18 vörumerki á danska og alþjóðlega tískumarkaðinum en er best þekkt fyrir hönnun Karen Simonsen. Sá klæðnaður er seldur undir vörumerkinu Karen by Simonsen






Fleiri fréttir

Sjá meira


×