Viðskipti erlent

Samráð um þvottaduft kostar 51 milljarð í sekt

Risafyrirtækin Unilever og Procter & Gamble hafa verið sektuð um 315 milljónir evra eða rúmlega 51 milljarð kr. vegna verðsamráðs um sölu á þvottadufti. Fyrirtækin komu sér saman um verðlagningu á þvottadufti í átta Evrópulöndum.

Fjallað er um málið í BBC. Þar segir að sektin sé niðurstaða af þriggja ára langri rannsókn sem gerð var að undirlagi framkvæmdastjórnar ESB. Rannsóknin hófst eftir ábendingu frá þýska fyrirtækinu Henkel.

Upphaflega áttu Unilever og Procter & Gamble að fá enn hærri sekt en hún var minnkuð um 10% þar sem bæði fyrirtækin viðurkenndu samráð sitt. Upphæðin skiptist þannig að Unilever á að borga um 16 milljarða kr. og Procter & Gamble um 35 milljarða kr.

Löndin þar sem verðsamráðið átti sér stað voru Belgía, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Grikkland, Portúgal, Spánn og Holland og það stóð yfir árin 2002 til 2005. Þvottaduftið sem hér um ræðir var af tegundunum Tide, Gain, Era, Omo og Surf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×