Viðskipti erlent

Lánshæfi Írlands það sama og Íslands hjá Moody´s

Matsfyrirtækið Moody´s hefur lækkað lánshæfiseinkunn Írlands um tvo flokka og er einkunnin nú aðeins einu haki frá ruslflokki eins og lánshæfiseinkunn Íslands. Horfur eru neikvæðar á einkunn Írlands.

Í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni er sagt að einkunn Írlands, Baa3 sé sú sama og Íslands, Túnis, Rúmeníu og Brasilíu.

Írland glímir nú við verstu bankakreppu í Evrópu og talið er að írskir skattgreiðendur muni þurfa að borga allt að 100 milljarða evra, eða um 16.300 milljarða kr. vegna þess að írsk stjórnvöld ákváðu að ábyrgjast skuldir írsku bankanna.

Gary Jenkins greinandi hjá Evolution Securities í London segir að með þessari lækkun á lánshæfinu hjá Moody´s sé Írland komið í óþægilegustu stöðuna í lánshæfismatinu, aðeins einu skrefi frá ruslflokknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×