Viðskipti erlent

Verðbólga heldur áfram að aukast á evrusvæðinu

Samræmd vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,7% að meðaltali á síðastliðnum tólf mánuðum á evrusvæðinu. Er verðbólgan að aukast á svæðinu en í febrúar var hún 2,4%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að verðbólgan er nokkuð meiri ef miðað er við allt Evrópska efnahagssvæðið (EES), en í mars nam hún 3,1% en hafði verið 2,9% mánuðinn á undan.

Líkt og undanfarna mánuði á þessi tólf mánaða hækkun á samræmdu vísitölunni í mars síðastliðnum rætur sínar að rekja til hækkunar orkuverðs á tímabilinu. Þannig hefur liðurinn ferðir og flutningar hækkað mest (um 5,6%) á síðastliðnum tólf mánuðum á evrusvæðinu en einnig hefur töluverð hækkun verið á húsaleigu, hita og rafmagni (5,1%) og svo áfengi og tóbaki (3,6%).

Þannig má rekja þessa hækkun til eldsneytisverðs (+0,60 prósentustig í vísitölunni), olíu til hitunar (+0,24) og rafmagns og gas (+0,10) en þessir þættir höfðu mestu hækkunaráhrifin á tímabilinu. Er þessi aukning verðbólgunnar því augljóslega ekki til marks um mikinn gang í efnahagslífinu í ríkjum evrusvæðisins, eða EES í heild.

Af löndum EES var verðbólgan mest í mars í Rúmeníu (8,0%), næstmest í Eistlandi (5,1%) og þriðja mest í Búlgaríu (4,6%) og Ungverjalandi (4,6%). Að þessu sinni var verðbólgan minnst í Noregi (0,9%) og svo í Sviss (1,0%). Verðbólgan hér á landi miðað við samræmdu vísitöluna mældist 2,3% í mars og er þar með óbreytt frá því í febrúar. Þetta er í þriðji mánuðurinn í röð síðan í janúar árið 2008 sem verðbólgan hér á landi mælist undir meðalverðbólgu í ríkjum EES.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×