Viðskipti erlent

Fokið í skattaskjól á Seychelleseyjum

Norrænu ríkin, þ.e. Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð auk Færeyja og Grænlands undirrituðu í vkunni samkomulag við yfirvöld á Seychelleseyjum um skipti á skattaupplýsingum. Samkomulagið er enn einn áfanginn í viðamiklu starfi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að sporna gegn skattaflótta til annarra landa.

Fjallað er um málið á vefsíðunni norden.org. Þar segir að samningurinn veitir skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um alla einstaklinga sem reyna að komast hjá því að greiða tekju- og fjármagnsskatta og afhjúpar einnig tekjur sem ekki hafa verið gefnar upp til skatts í heimalandinu. Samningana þarf að gera tvíhliða þar sem þeir krefjast samþykkis þjóðþinga í hverju landi.

Frá því að viðræður hófust vorið 2007 hafa eftirfarandi ríki gert samkomulag við Norðurlönd um upplýsingaskipti: Andorra, Angvilla, Antígva og Barbúda, Arúba, Bahamaeyjar, Belís, Bermúda, Bresku Jómfrúaeyjar, Caymaneyjar, Cookseyjar, Dominíka, Gíbraltar, Grenada, Guernsey, Mön, Jersey, Líbería, Marshalleyjar, Mónakó, Montserrat, Hollensku Antillur, Samóa, San Marínó, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsía, Turks- og Caicoseyjar, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar og Vanúatú.

Norðurlönd eru því í lykilaðstöðu í baráttunni gegn skattaflótta í heiminum, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×