Viðskipti erlent

Uppgjör Royal Unibrew betra en vænst var

Royal Unibrew, næststærstu bruggverksmiðjur Danmerkur, skiluðu betra uppgjöri eftir fyrsta ársfjórðung ársins en vænst var. Fjórðungurinn er yfirleitt sá lélegasti á árinu hvað ölsölu varðar en Unbrew tókst að auka veltuna aðeins m.v. sama tímabil í fyrra.

Straumur heldur enn á 4,99% hlut í Royal Unibrew og Stoðir eiga tæplega 6%.

Samkvæmt frétt um uppgjörið á börsen.dk varð 10 milljón danskra kr. hagnaður af sjálfum rekstrinum á ársfjórðungnum. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta var nettó niðurstaðan tap upp á rúmlega 18 milljónir danskra kr. Til samanburðar var tapið 34,5 milljónir danskra kr. á sama tíma í fyrra.

Velta Unibrew á fjórðungnum nam tæpum 782 milljónum danskra kr. m.v. tæpar 777 milljónir í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að það breyti ekki væntingum Unibrew um árið í heild sem eru hagnaður upp á 205 til 255 milljónir danskra kr. Hinsvegar megi vænta þess að hagnaðurinn verði í hærri kantinum á þessu mati.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×