Viðskipti erlent

Stórbankar opna gullhvelfingar sínar að nýju

Mikil eftirspurn eftir gulli í heiminum hefur orðið til þess að bankarisinn JP Morgan hefur ákveðið að opna gullhvelfingu sína í New York að nýju.

Miklar verðhækkanir á heimsmarkaðsverði á gulli undanfarnar vikur og mánuði hafa gert það að verkum að fjárfestar vilja nú í auknum mæli fremur höndla með gull en verðbréf.

Hvelfingu JP Morgan var lokað í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar þegar verulega dró úr viðskiptum með gull.

Í frétt um málið í Financial Times segir að margir stórbankar sem lokuðu gullhvelfingum sínum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar séu nú að opna þær að nýju. Bankar á borð við Deutsche Bank og Barclays íhugi að endurbyggja gullhvelfingar sínar.

Það fylgir sögunni að ekki sé hægt að opna margar sögufrægar gullhvelfingar þar sem búið sé að breyta þeim í veitingahús. Nefnt er sem dæmi að gullhvelfing sem auðjöfurinn John Pierpoint Morgan lét byggja árið 1904 hýsir nú steikhús.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×