Viðskipti erlent

Hótel í Danmörku grátt leikin af öskunni í apríl

Hótel í Danmörku voru grátt leikin af öskunni frá gosinu í Eyjafjallajökli. Ný könnun sýnir að velta þeirra minnkaði um 20% í aprílmánuði og er það rakið beint til öskunnar og þeirra truflana sem hún olli á flugsamgöngum.

Það er Horesta, samtök hóteleigenda í Danmörku, sem tekið hefur saman yfirlit um tap hótela og gistihúsa vegna öskunnar. Í fyrstu jukust gistinætur í landinu, einkum Kaupmannahöfn, vegna þess fólks sem var strand í landinu þar sem flugumferð lá niðri. Sú sæla varaði ekki nema nokkra daga.

Alls voru gistinætur í Kaupmannahöfn 10.700 færri í apríl en í apríl í fyrra. Samsvarandi tölur fyrir landsbyggðina eru 3.700 gistinætur.

Þá kemur fram í könnun Horesta að aflýstar ráðstefnu og fundir í apríl hafi komið niður á 57% hótela í Kaupmannahöfn og 20% hótela á landsbyggðinni.

Í frétt um málið á vefsíðunni epn.dk segir að Hoestra telji að hótelin í Danmörku eigi að fá fjárstuðning frá ESB vegna tapsins líkt og flugfélögin hafa fengið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×