Viðskipti erlent

Norski olíusjóðurinn tapaði tæpum 3.000 milljörðum

Norski olíusjóðurinn fékk á sig mikinn skell á öðrum ársfjórðungi ársins. Tapið af rekstrinum nemur 155 milljörðum norskra kr. eða rétt tæpum 3.000 milljörðum kr. Er þetta fjórða mesta tap á einum ársfjórðungi hjá sjóðnum.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar segir að stóran hluta af þessum tapi megi rekja til breska olíufélagsins BP og olíuslyssins á Mexíkóflóa. Olíusjóðurinn er einn af stærstu hluthöfunum í BP og mátti sjá eign sína upp á 21 milljarð norskra kr. minnka um helming eftir slysið.

Vegna hagstæðis gengis norsku krónunnar jukust eignir olíusjóðsins í heild á ársfjórðungnum mælt í þeirri mynt eða um 29 milljarða norskra kr. Verðmæti sjóðsins stendur því í 2.792 milljörðum norskra kr. eða 54 þúsund milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×