Viðskipti erlent

Norski skatturinn fann 14 milljarða í skattaparadísum

Norsk skattayfirvöld ákærðu 30 einstakinga í fyrra fyrir að hafa falið auðæfi sín í skattaparadísum víða um heiminn. Samtals nemur upphæðin 700 milljónum norskra kr. eða um 14 milljörðum kr.

Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að inni í þessari tölu sé 300 milljóna norskra kr. undandráttur Þjóðverjans Wolfgang Schmitz eiganda stálverslunarfyrirtækisins Nordic Intertrade.

Schmitz er sakaður um að hafa tekið þessa upphæð úr rekstri fyrirtækisins og falið hana á reikningum á eyjunum Mön og Kýpur. Um er að ræða stærsta skattaundanskot í sögu Noregs.

Svein Kristensen skattstjóri Noregs segir í samtali við e24.no að margir þessara 30 einstaklinga sem kærðir voru notuðu mjög fagmannlegar aðferðir við að koma fé sínu undan skattinum og yfir í skjólið í skattaparadísunum.

„Þeir hafa stofnað félög í fleiri en einni skattapardís og síðan flutt fé sitt á milli þeirra," segir Kristensen. „Þar að auki hefur þetta fólk notað leppa í töluverðum mæli."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×