Viðskipti erlent

Vaxandi áhyggjur af þjóðargjaldþroti Grikklands

Þrír af hverjum fjórum fjárfestum og greinendum telja að þjóðargjaldþrot sé framundan hjá Grikklandi þar sem landið geti ekki staðið undir skuldum sínum.

Þetta eru niðurstöður könnunnar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar en 73% aðspurðra telja að Grikkland muni lenda í greiðslufalli með lán sín frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sá lánapakki í heild hljóðar upp á 110 milljarða evra eins og kunnugt er.

Í könnuninni kom einnig fram að 40% aðspurðra töldu að Grikklands myndi neyðast til þess að yfirgefa evrumyntbandalagið vegna skuldastöðu sinnar. „Það er raunverulega hætta til staðar á því að það kvarnist úr evrusamstarfinu," segir Geoff Marson hjá fjárfestingafélaginu Odey í samtali við Bloomberg.

Við þetta má bæta að samkvæmt CMA gagnveitunni stendur skuldatryggingaálag Grikklands nú í tæpum 800 punktum og þar eru taldar ríflega 47% líkur á þjóðargjaldþroti landsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×