Viðskipti erlent

Fjármálamarkaðir eru að tærast upp hægt og bítandi

Fjármálakreppan hefur skilið eftir sjúkdóm sem er hægt og bítandi að tæra upp fjármálamarkaði heimsins. Dag eftir dag sökkva fjármálamarkaðirnir aðeins dýpra niður í fen sem gæti orðið verulega erfitt að ná sér upp úr eftir skamman tíma.

Þetta er boðskapurinn frá Mohamed El-Erian einum helsta þungaviktarmanni alþjóðlegra fjármála en hann er forstjóri Pimco stærsta skuldabréfasjóðs heimsins. Ummælin lét El-Erian falla í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina.

„Við neyðumst til að taka stöðuna alvarlega," segir El-Erian. „Maður sér kannski ekki mikinn mun frá degi til dags en ef við gerum ekki eitthvað í málinu verður staðan alvarleg."

Samkvæmt El-Erain brýst sjúkdómurinn fram í m.a. fækkun viðskipta, vaxandi ójafnvægi á heimsvísu og minnkandi trausti á fjármálakerfin.

Augljósasta dæmið í augnablikinu er gjaldmiðlamarkaðurinn þar sem fleiri lönd heyja nú gjaldmiðlastríð þar sem gjaldmiðlar eru markvisst veiktir til þess að auka samkeppnishæfi atvinnulífsins í viðkomandi löndum. Sem stendur eru Bandaríkin með forystu í þessu „kapphlaupi á botninn" eins og El-Erian orðar það.

El-Erian segir að það sé ekki endalaust hægt að berja á dollaranum þar sem hann er ennþá helsta gjaldeyrisforðamynt heimsins. Slíkt geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. „Haldi sú þróun áfram að berja á dollaranum mun það leiða til þess að markaðsaðilar (fjárfestar, bankar, seðlabankar) fara að leita að öðrum miðlum fyrir varasjóði sína," segir El-Erian. „Þar sem í rauninni er ekki um aðra valkosti að ræða mun kerfið brotna enn meira niður."

Lausnin sem El-Erain sér er einkum að í stað þess að berja á hvor öðrum eigi markaðsaðilar að koma sér saman um lausnir. Það hafi því verið mikil vonbrigði að ekkert kom út úr aðalfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um síðustu helgi hvað varðar gjaldmiðlastríðið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×