Viðskipti erlent

Óopnaður Landsbankapóstur kostaði 540 milljónir

Borgarsjóður Stoke-on-Trent á Englandi tapaði 3 milljónum punda eða rúmum 540 milljónum kr. sökum þess að tölvupóstur frá Landsbankanum í Bretlandi var ekki opnaður í aðdragenda hrunsins haustið 2008.

Í frétt um málið á BBC segir að borgaryfirvöldum hafi borist tölvupósturinn þann 1. október árið 2008 en í honum er greint frá aukinni áhættu sem er á fimm milljóna punda innistæðum borgarsjóðsins í bankanum. Borgarstjórnin hafði tækifæri til þess að draga út 3 milljónir punda af innistæðunum fyrir 8. október þegar Landsbankinn féll.

Þetta kemur fram í skýrslu endurskoðenda Stoke-on-Trent um málið. Borgaryfirvöld segja að "mannleg mistök" hafi valdið því að tölvupósturinn frá Landsbankanum var ekki opnaður fyrir hrun bankans. Í póstinum er ekki varað við yfirvofandi hruni bankans en sagt að lánshæfi bankans hafi minnkað. Pósturinn hafi verið ráðgefandi en ekki viðvörun um að draga innistæðurnar strax út.

Einn af borgarfulltrúum Stoke-on-Trent segir að eftiráspeki sé dásamlegur hlutur en ekki sé víst að innistæðurnar hefði verið dregnar út þótt einhver hefði opnað tölvupóstinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×