Viðskipti erlent

Sænsk hlutabréf gefa mest af sér í Evrópu í ár

Þeir sem fjárfest hafa í sænskum hlutabréfum munu að öllum líkindum fá mestan arð allra af slíkum viðskiptum í Evrópu í ár. Þetta kemur fram á Bloomberg fréttaveitunni.

Í frétt um málið segir að þetta stærsta hagkerfi Norðurlandanna hafi komist hjá niðurskurði sem draga úr hagnaði af hlutabréfaviðskiptum í öðrum löndum Evrópu. Svíþjóð sé með lægsta fjárlagahallann meðal Evrópuríkja og skuldahlutfall sem sé um helmingur af meðaltalinu í Evrópu.

Samkvæmt gögnum sem Bloomberg hefur tekið saman stefnir í að sænsk hlutabréf muni gefa af sér 21,5% arð að jafnaði eftir árið. Til samanburðar er talið að arðurinn í Þýskalandi muni nema 14,3% og 16% í Sviss. Fyrir þau fyrirtæki sem mynda Euro Stoxx 50 vísitöluna, en í henni eru stærstu fyrirtæki Evrópu, mun arðurinn hinsvegar nema um 11,7%.

Fram kemur á Bloomberg að hlutabréf í Danmörku og Noregi muni standa sig betur en Euro Stoxx 50, í Danmörku stefnir í að arður af hlutabréfum verði 15,8% að jafnaði og 15,3% í Noregi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×