Viðskipti erlent

Bloomberg: Lokafrestur settur á tilboð í West Ham

Eigendur West Ham hafa þrjár vikur til að svara tilboðinu frá David Gold og David Sullivan í liðið. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun um söluna á West Ham á Bloomberg fréttaveitunni.

Samkvæmt heimildum Bloomberg vilja þeir Gold og Sullivan taka við stjórn West Ham áður en félagaskiptagluggi leikmanna lokar þann 21. janúar n.k. til að koma í veg fyrir að bestu leikmenn West Ham verði seldir til að laga skuldastöðu félagsins.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum hafa þeir Gold og Sullivan gert 50 milljón punda tilboð í West Ham en það er töluvert undir því verði sem Straumur vonast til að fá fyrir liðið. Þegar tilboðið lá fyrir í síðustu viku skrifuðu a.m.k. tveir breskir fjölmiðlar að því yrði að öllum líkindum hafnað.

Fram kemur í umfjöllun Bloomberg að Straumur eigi von á tilboði frá Bandaríkjunum í liðið og haldi því að sér höndunum í augnablikinu. Fyrir utan Gold og Sullivan hafa tveir aðrir áhugasamir kaupendur verið í sambandi við Rothschild bankann sem sá um söluferlið. Þar er um að ræða fjárfestirinn Tony Fernandes frá Malasíu og Intermarket Group sem er fjármálafyrirtæki í London.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×