Viðskipti erlent

Íslandshrun leiðir til breytinga í fjármálum breskra sveitarfélaga

Hið gífurlega tap bæjar- og sveitarfélaga á hruni íslenska bankakerfisins s.l. haust hefur leitt til grundvallarbreytinga í stjórn á fjármálum þessara félaga. Fulltrúar þeirra eiga nú í viðræðum við forstjóra sjóða í The City, fjármálahverfi Lundúna, um stofnun nýrra sjóða sem sjái sérstaklega um að ávaxta fjármuni bæjar- og sveitarfélaganna.

 

Í frétt um málið í The Financial Times segir að um sé að ræða útfærslu á markaðssjóðum þar sem bæjar- og sveitarfélögin gætu ávaxtað lausafé sitt en það er talið nema um 30 milljörðum punda. Tap þessara félaga á íslensku bönkunum nam einum milljarði punda, eða ríflega 200 milljörðum kr. Þetta tap leiddi svo aftur til þess að félögin drógu í miklum mæli fé sitt úr úr breskum fasteignasjóðum (building societies).

 

Samtök sveitarfélaga á Bretlandi (LGA) hafa veitt heimild sína til framangreindra viðræðnum um stofnun sérstakra markaðssjóða sem yrðu sniðnir að þörfum félaganna. LGA reiknar með að í krafti stærðar sinnar gætu félögin t.d. fengið afslátt af þeirri prósentu, allt að 0,2%, sem núverandi markaðssjóðir taka af viðskiptavinum sínum fyrir að ávaxta fjármuni þeirra.

 

Þetta eru svo aftur slæmar fréttir fyrir fasteignafélögin sem horfa fram á enn frekari flótta fjármagns frá sér ef framangreindar viðræður skila árangri. Adrian Coles forstjóri samtaka fasteignasjóða í Bretlandi segir að bæjar- og sveitarfélögin hafi orðið fyrir verulegu áfalli vegna íslenska bankahrunsins..."Nú leita þeir umfram allt í örugg skjól með fjármuni sína," segir Coles.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×