Viðskipti erlent

Sports Direct ætlar í mál við Kaupþing í Bretlandi

Íþróttavörukeðjan Sports Direct ætlar í mál við stjórnendur Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi. Málið er höfðað vegna yfirtöku á eignarhlutum Sports Direct í verslunarkeðjunum Blacks Leisure og JD Sports Fashion.

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni snemma í morgun báðu Ernst & Young, skiptastjórar Kaupthing Singer & Friedlander, dómstól um að úrskurða um að eignarhlutirnir væru ekki lengur eign Sports Direct.

Í gærkvöldi tilkynnti JD Sports Fashion um að Sports Direct færi ekki lengur með 11% eignarhlut í keðjunni. Og fyrir hádegið kom tilkynning frá Blacks Leisure um að Sports Direct færi ekki lengur með 29% hlut í keðjunni.

Í frétt á vefsíðu Retailweek um málið segir að Sports Direct hafi þegar afskrifað þessa eignarhluti úr bókum sínum en verðmatið á þeim var 53 milljón pund eða um 11 milljarðar kr.

Í yfirlýsingu frá Sports Direct í morgun segir hinsvegar..."við staðfestum að við munum áfram verjast aðgerðum Kaupthing Singer & Friedlander og stjórnenda bankans Ernst & Young til að taka yfir fjárfestingar Sports Dircet, þar á meðal þær í Blacks Leisure og JD Sports"

Ennfremur segir í yfirlýsingunni að Sports Dircet ætli í mál við Kaupthing Singer & Friedlander og Ernst & Young til þess að verja lagaleg réttindi sín.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×