Viðskipti erlent

Stoðir og Straumur halda hlut sínum í Royal Unibrew

Royal Unibrew, næststærstu bruggverksmiðjur Danmerkur, hafa lokið velheppnaðri hlutabréfaaukningu sinni en alls komu tæplega 400 milljónir danskra kr., eða tæplega 10 milljarðar kr, inn í nýju hlutafé. Þessi aukningu á að nota til að greiða niður skuldir Royal Unibrew.

Eins og kunnugt er af fréttum halda Stoðir um 16% hlut í Royal Unibrew og eru þar með stærsti einstaki hluthafinn. Straumur á svo rúmlega 5% í viðbót í bruggverksmiðjunum.

Í frétt um hlutafjáraukninguna á business.dk segir að hluthafar Royal Unibrew hafi átt forgangsrétt á hinum nýju hlutum og hafi 99,8% þeirra nýtt sér þann rétt, keypt nýju hlutina eða selt réttinn til þeirra áfram.

„Það má segja að um fulla þátttöku hluthafanna var að ræða í aukningunni. Þessi 0,2% sem standa út af eru sökum þess að ekki tókst að ná sambandi við einhverja hluthafanna," segir Ulrik Sörensen fjármálastjóri Royal Unibrew í samtali við business.dk.

Hinir nýju hlutir verða teknir til viðskipta í kauphöllinni í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn í næstu viku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×