Viðskipti erlent

Eftirspurn fjárfesta eftir gulli rýkur upp

Eftirspurn meðal fjárfesta eftir gulli hefur rokið upp samkvæmt nýjum upplýsingum frá World Gold Council. Hinsvegar hefur eftirspurn eftir skartgripum úr gulli dalað töluvert.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins nam eftirspurnin eftir gulli í heild samtals 1.016 tonnum sem er 38% aukning frá sama tímabili í fyrra. Eftirspurn eftir gulli sem fjárfestingarvöru jókst hinsvegar um 248% og fór í 596 tonn. Hinsvegar minnkað eftirspurnin eftir gulli til skartgripagerðar um 24%.

Í umfjöllun um málið á BBC segir að gull sé oftast álitið ein öruggasta fjárfestingin á óvissutímum og sem vörn gegn verðbólgu.

Kína sker sig nokkuð úr hvað varðar eftirspurn eftir skarti úr gulli því þar í landi jókst hún um 3% sem sýnir styrk kínverska hagkerfisins.

Eftirspurn eftir gulli til iðnaðarnota, en gull er notað í tölvu- og farsímaframleiðslu, minnkaði um 31% á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Verð á gulli hefur hækkað úr 700 dollurum á únsuna í nóvember og upp í yfir 900 dollara í dag. Margir spá því að gullið fari yfir 1.000 dollara markið í ár.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×