Viðskipti erlent

Woodstock fjármálaheimsins haldið um næstu helgi

Aðalfundur Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags milljarðamæringsins Warren Buffett, verður haldið um næstu helgi en fundir þessir hafa gengið undir nafninu Woodstock fjármálaheimsins.

Á síðasta ári mættu yfir 30.000 manns á fundinn og hlustuðu á Buffett skýra frá skoðunum sínum á ýmsum málum allt frá bandarískum hafnarbolta og að Paris Hilton. Bloomberg fréttaveitan segir að í ár muni Buffett hinsvegar einbeita sér að þeim leiðum sem hægt er að fara til að snúa við rekstri félags síns eftir versta ár í sögu þess.

Buffett þarf að róa hluthafa sína eftir að markaðsverðmæti Berkshire Hathaway hefur minnkað um 37% frá ársbyrjun 2008, slæma fjárfestingu í olíufélaginu ConcoPhillips og lækkun á lánshæfismati Berkshire Hathaway hjá matsfyrirtækjum.

Engar hömlur hafa hingað til verið settar á þær spurningar sem hluthafar geta beint til Buffett á þessum fundum og hafa þær verið allt frá hugleiðingum um íþróttir og upp í tengsl Buffett við Jesú Krist. Í ár verður þessu breytt þannig að helmingur spurninganna verður að snúast um málefni Berkshire Hathaway.

„Þessi fundur verður á mun alvarlegri nótum en áður," segir Bill Bergman greinandi hjá Morningstar Inc. „Hluthafar í Berkshire eru ekki vanir að sjá 40% niðursveiflu og við erum á alvarlegum tímapunkti í efnahagsmálum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×