Viðskipti erlent

Íhuga lögreglurannsókn á njósnahneyksli í Deutsche Bank

Ríkissaksóknari Þýskalands hefur staðfest að embættið sé að íhuga hvort fram fari lögreglurannsókn á njósnahneyksli sem komið er upp hjá Deutsche Bank, stærsta banka Þýskalands.

Deutsche Bank hefur verið ásakaður um að hafa látið njósna um tvo af meðlimum stjórnar bankans en þeir voru grunaðir um að hafa lekið viðkvæmum upplýsingum úr bankanum. Einnig að hafa njósnað um einn af hluthöfum bankans en sá hefur oft gert stjórninni lífið leitt á hluthafafundum.

Bankinn hefur hingað til neitað að tjá sig um málið en vitað er að stjórn bankans hefur sjálf rannsakað þetta mál frá því í maí s.l. Síðan hafa bæði yfirmaður öryggisdeildar bankans og yfirmaður fjárfestatengsla verið reknir úr störfum sínum.

Eigin rannsókn bankans heldur áfram og samkvæmt frétt á BBC segir talsmaður hans að engra yfirlýsinga sé að vænta fyrr en þeirri rannsókn er lokið.

Ríkissaksóknarinn er nú með gögn sem tengjast málinu frá Persónuverndarskrifstofu landsins til skoðunar. Reiknað er með ákvörðun frá honum um lögreglurannsókn á næstu 2-3 vikum.

Fyrirtækjanjósnir eru ekkert nýmæli í Þýskalandi. Dæmi um slíkt hafa komið upp hjá stórfyrirtækjum á borð við Deutsche Telekom, Deutsche Bahn og Lidl á síðustu árum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×