Viðskipti erlent

Launin voru meir en hálft tonn að þyngd

Tvær rússneskar konur urðu fyrir óþægilegri lífreynslu þegar forstjóri þeirra ákvað að gera upp lokalaunagreiðslur þeirra í mynt. Í heild vógu launin yfir hálft tonn.

Heildarupphæðin var 120.000 kr. fyrir hvora konuna sem forstjórinn greiddi í 5 kopeka myntum sem eru innan við 20 aura virði hver.

Samtals var þyngd launagreiðslunnar því 660 kg. sem forstjórinn afhenti konunum tveimur í 33 pokum sem voru 20 kg hver. Ástæðan fyrir þessu, að sögn AFP fréttastofunnar, voru deilur kvennanna við forstjórann um uppgjörið en þær unnu fyrir Deco-Line í borginni Vladivostok.

Konunum tveimur hafði verið sagt upp störfum vegna samdráttarins í rússneska efnahagslífinu en þær áttu síðan orlofsgreiðslur inni hjá fyrirtækinu. Illa gekk að fá orlofið greitt og á endanum kærðu þær forstjórann. Hann ákvað þá að greiða þeim lokauppgjörið með þessum hætti.

Forstjórinn, Konstantin Lyalikov skilur ekkert í því uppistandi sem varð í kjölfarið. „Konurnar vildu fá fullt af peningum og fengu það. Hvaða máli skiptir hvernig þær fengu greitt?," segir Lyalikov í samtali við AFP.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×