Viðskipti erlent

Bankahlutir í blóðbaði í kauphöll Kaupmannahafnar

Hlutir í Amagerbanken féllu um 31% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í gærdag og við upphaf markaðarins í dag féllu hlutirnir um 40%. Yfir helmingur af verðmæti hlutanna hefur gufað upp á tveimur dögum.

Á miðvikudag stóð hluturinn í 53,5 dönskum kr. Í augnablikinu eru viðskiptin á verðinu 22,60 danskar kr.

Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að danska fjármálaeftirlitið hafi þvingað Amagerbanken til að gera opinbert í gærdag að bankinn stenst ekki kröfur um eignfjárhlutfall það sem eftirlitið gerir kröfur um. Bankann skortir 600 milljónir danskra kr. til þess að uppfylla kröfurnar eftir stórtap bankans á fasteignalánum undanfarið ár.

„Þetta ofbeldisfulla fall á hlutabréfunum endurspeglar þá stóru óvissu sem ríkir um stöðu bankans," segir Jens Houe Thomsen greinandi hjá Jyske Bank í samtali við Jyllands Posten.

Stjórn bankans reynir nú af öllum mætti að skrapa saman stuðning fyrir útgáfu á nýju hlutafé til að rétta af stöðuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×