Viðskipti erlent

Kaupþing fékk tveggja milljarða högg í kauphöllinni í Osló

Kaupþing varð fyrir tveggja milljarða kr. gengistapi í kauphöllinni í Osló í dag. Hlutir í tryggingarfélaginu Storebrand féllu um 11,5% í framhaldi af tilkynningu félagsins um mikið tap á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Kaupþing er sem stendur næststærsti hluthafinn í Storebrand með 5,5% hlut og Arion Custody, sem er í eigu Kaupþings er fjórði stærsti hluthafinn með 4,5% hlut. Samtals nemur eignarhluturinn því 10%.

Fyrir opnun kauphallarinnar í Osló var markaðsverðmæti Storebrand vel yfir 11 milljarða norskra kr. Fallið í dag þýðir að rúmlega milljarður norskra króna tapaðist hjá hluthöfum félagsins. Því nam gengistap Kaupþings yfir 100 milljónum norskra kr. eða um 2 milljörðum kr.

Raunar var útlit fyrir enn meira tap um tíma því hlutir Storebrand lækkuðu allt niður í 15,4% áður en þeir tóku aðeins við sér á ný undir lok markaðarins.

Tap Storebrand á fyrsta ársfjórðungi nam 733 milljónum norskra kr. eða tæplega 14 milljarðar kr. Samkvæmt frétt um málið á vefsíðunni e24.no töldu sérfræðingar að tapið yrði ekki meira en rúmlega 160 milljónir norskra kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×