Viðskipti erlent

Iðnaðarframleiðslan langt umfram væntingar í Þýskalandi

Iðnaðarframleiðsla í Þýskalandi jókst um 3,7% í maí síðastliðnum frá fyrri mánuði og hefur ekki aukist jafn mikið í einum mánuði í 16 ár.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta gefi væntingum byr undir báða vængi þess efnis að þýska hagkerfið væri nú kominn yfir versta hjalla efnahagslægðarinnar og það versta væri afstaðið í þýskum iðnaði.

Aukningin var langt umfram væntingar. Spár höfðu gert ráð fyrir að aukningin yrði 0,5% í maí eftir samdrátt iðnaðarframleiðslu í apríl. Tölurnar voru birtar í gær og urðu til þess að evran styrktist lítillega gagnvart dollar.

Svo virðist sem hagtölur séu nú byrjaðar að ríma við væntingar sem hafa undanfarið snúist til betri vegar. Þannig hafa væntingar þýskra greinenda og fjárfesta verulega glæðst undanfarna mánuði og hafa nú ekki verið hærri um 3 ára skeið.

Á fyrsta ársfjórðungi dróst landsframleiðsla í Þýskalandi saman um 6,9% samanborið við sama fjórðung fyrir ári síðan og var samdrátturinn einna mestur þar af stóru ríkjum ESB á tímabilinu. Samdráttinn má rekja til fimmtungs samdráttar í útflutningi á tímabilinu en þýska hagkerfið á mikið undir að eftirspurn á heimsvísu taki við sér á nýjan leik og heimsviðskipti fari að glæðast.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×