Viðskipti erlent

Danskar ferðaskrifstofur með buxurnar á hælunum

Mun fleiri Danir vilja ferðast til sólarstranda en pláss er fyrir hjá ferðaskrifstofum landsins. Ferðaskrifstofurnar hafa vanmetið verulega eftirspurnina eftir þessum ferðum í ár og standa því með buxurnar á hælunum að því er segir í frétt í Politiken um málið.

Uppselt er í nær allar sólarlandaferðir frá Danmörku þetta sumarið og slegist um þau fáu sæti sem enn eru óseld. Þrjár af stærstu ferðaskrifstofum landsins geta ekki annað eftirspurninni á ferðum fyrr en skólahald hefst aftur með haustinu í landinu.

Fram kemur í frétt Politiken að mikill pirringur sé meðal ferðaskrifstofanna að hafa vanmetið eftirspurnina svona mikið en jafnframt léttir yfir því að þær munu koma betur undan fjármálakreppunni í ár en vænst var.

Ástæðan fyrir auknum ferðaáhuga Dana suður á bóginn eru einkum tvær. Fjöldi af Dönum hefur ákveðið að taka út séreignasparnað sinn, svipað og hérlendis, og sumarið hefur verið afspyrnu slappt hvað veður varðar í Danmörku. Stöðugar rigningar og leiðindaveður hefur verið á nær hverjum degi það sem af er sumri.

„Það er verulega pirrandi að við drógum úr framboði okkar á þessum ferðum í vor," segir Jan Lockhart forstjóri Apollo resjer. „Við hefðum getað selt þrjú til fjögur þúsund fleiri ferðir í ár en við gerðum ráð fyrir að selja. Á móti fáum við góð verð fyrir þær ferðir eru í boði."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×