Viðskipti erlent

Hlutabréf í Royal Unibrew rjúka upp í verði

Mikill skriður hefur verið á verði hlutabréfa í bruggverksmiðjunum Royal Unibrew í kauphöllinni í Kauðmannahöfn í morgun. Hefur verðið á bréfunum hækkað um 22% m.v. stöðuna á þeim fyrir páska. Stoðir er einn stærsti hluthafinn með fimmtungshlut.

Samkvæmt frétt um málið á business.dk eru þrjár ástæður að baki þessum miklu hækkunum. Í fyrsta lagi hafa tveir af stórum hluthöfum í Unibrew nú lokið útsölu sinni á hlutum sínum og eru báðir komnir með undir 5% hlut. Þetta eru European Participations N.V. og Artio Global.

Í öðru lagi eru í gangi vangaveltur um að Harboe bruggverksmiðjan hyggi á yfirtöku á Unibrew á næstunni. Jyllands-Posten greindi frá því nýlega að Bernd Griese forstjóri Harboe væri tilbúinn að verja allt að einum milljarði danskra kr. í að kaupa Unibrew.

Markaðsvirði Unibrew er 330 milljónir danskra kr. í augnablikinu en taka ber tillit til þess að ef Harboe yfirtekur Unibrew yrði það einnig að yfirtaka 2 milljarða danskra kr. skuldapakka sem hvílir á Unibrew.

Og í þriðja lagi er bent á að stjórnarmenn í Unibrew hafa verið iðnir við að kaupa hluti í bruggverksmiðjunum að undanförnu sem bendi til að áætlanir þeirra keyri áfram eins og til er ætlast.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×