Viðskipti erlent

Opinber lífeyrissjóður hagnast vel á andláti Jackson

Hinn opinberi lífeyrissjóður ABP í Hollandi hagnast nú vel á andláti Michael Jackson því sjóðurinn á réttindin á hluta af lagasafni Jacksons.

Eftirspurn eftir lögum Jackson hefur verið gríðarleg frá því hann lést í vikunni og í hvert sinn sem lag eftir hann er spilað fljóta peningar inn í sjóði ABP, það er af þeim lögum sem sjóðurinn á.

„Það eru ætíð ákveðin lög sem skyndilega verða vinsæl af einni eða öðrum ástæðum, í þetta sinn vegna hörmulegs atburðar," segir talsmaður ABP í samtali við Reuters. „Þetta getur verið grundvöllur fjárfestingar." Talsmaðurinn vildi ekki gefa upp hve miklar fjárhæðir er um að ræða hvað Jackson varðar.

ABP eyddi 140 milljónum evra, eða um 25 milljörðum kr., á síðasta ári við að kaupa lagasöfn af þekktum dægurlagastjörnum. Í þessu eignasafni sjóðsins eru nú m.a. lög Justin Timberlake, Beyonce og Kaiser Chiefs. Þá á sjóðurinn einnig réttindin á tónverkum klassískra tónlistarmanna eins og Stravinsky og Rachmaninov.

Reuters segir ennfremur að nú hafi sjóðurinn áhuga á að kaupa lagasafn Bítlanna sem var í eigu Jacksons, það er svo framarlega sem fjölskyldan vilji selja það.

„Við höfum ætíð áhuga á góðum fjárfestingarmöguleikum. Bítla-safnið er að sjálfsögðu eitt af því fallegasta í sögu poppsins," segir talsmaður ABP.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×