Viðskipti erlent

Tíu villtustu verkefnin í Dubai

Ekkert mál er að fara á skíði í Dubai á innanhússvæði sem er það þriðja stærsta sinnar tegundar í heiminum.
Ekkert mál er að fara á skíði í Dubai á innanhússvæði sem er það þriðja stærsta sinnar tegundar í heiminum.
Fjármálamarkaðir um allan heim nötra nú af skelfingu yfir þróuninni í Dubai og hinir svartsýnustu telja að erfiðleikar þessa smáríkis séu upphafið að nýrri fjármálakreppu í heiminum. Bólan er sprungin í Dubai en þar hefur ekkert skort á brjálæðislegar byggingar og fasteignaverkefni á síðustu árum. Hér er listi yfir 10 villtustu verkefnin sem Jyllands Posten hefur tekið saman.

Á toppi listan er hæsta bygging í heimi, Burj Dubai. Hún stendur nú í 818 metra hæð og enn sér ekki fyrir endan á byggingu hennar. Alls hefur verið eytt 4.1milljarði dollara eða rúmlega 500 milljarða kr.

Númer tvö á listanum er eyjaklasinn The World sem samanstendur af 300 gerfieyjum sem mynda heimskort um 4 km undan ströndum Dubai. Í fyrra var tilkynnt að búið væri að selja 60% af þessum eyjum en meðal líklegra kaupenda voru Brad Pitt, Rod Stewart og David Beckham.

Númer þrjú er annað verkefni með gerfieyjaklasa er The Palm sem lítur út eins og þrjú pálmalaufblöð úr lofti. Búið er að stöðva framkvæmdir við þetta verkefni sökum fjárskorts.

Númer fjögur er háhýsið Burj Al Alam, eða Heimsturninn. Sú bygging verður ekki eins há og Burj Dubai en nær samt 510 metra upp í loftið. Fyrstu 74 hæðirnar eru fyrir lúxusskrifstofur en efstu 34 hæðirnar eru undir lúxusíbúðir.

Í fimmta sæti er Dubailand sem er svar Dubaibúa við Disney World og var kynntur til sögunnar á sínum tíma sem stærsti skemmtigarður í heimi. Dubailand þekur 278 ferkílómetra og er þar með meir en tvöfalt stærri en Disney World. Meðal þess sem þar er að finna er eftirlíking af Legoland.

Í sjötta sæti er verkefnið Falconcity of Wonder sem í raun tilheyrir Dubailand en fær sinn eigin sess sökum umfang þess. Þar á að skapa sjö af undrum veraldar í fullri stærð, þar með talinn Effelturninn, Skakka turninn í Pisa og Taj Mahal. Áætlaður kostnaður var 1,5 milljarðar dollara eða um 185 milljarða kr.

Númer sjö á listanum er Dubai Sports City en þótt Dubai sé þekkt fyrir allt annað en áhuga eða getu í íþróttum er verið að byggja íþróttasvæði í landinu sem þekur 4,6 ferkílómetra. Fyrir utan leikvang sem tekur 60.000 manns í sæti, ásamt krikket-velli sem tekur 25.000 gesti í sæti má efna 18 holu golfvöll sem hannaður er af Ernie Els.

Númer átta á listanum er Hydropolis sem á að verða fyrsta lúxushótelið sem byggt er neðansjávar. Byggingu þess á að ljúka á næstunni en það er 260 hektarar að stærð og með pláss fyrir 220 íbúðasvítur. Nóttin þar kostar frá 5.000 dollurum, eða 600.000 kr. og uppúr.

Í níunda sæti er svo skíðasvæðið Ski Dubai. Það er að vísu ekki stærsta innandyra skíðasvæði heimsins en nær þriðja sætinu hvað það varðar. Það þykir nokkuð sérstakt að stunda skíðaíþróttina þar vitandi af snarpheitum eyðimerkurvindi hinum meginn við vegginn.

Og í tíunda sæti er Mall of Arabia verslunarmiðstöð á nokkrum hæðum með verslunarpláss upp á 930.000 fermetra. Það er sem sagt hægt að koma ca. 100 Kringlum fyrir enda um stærstu verslunarmiðstöð heimsins að ræða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×