Viðskipti erlent

Greitt fyrir uppljóstrun

Forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins vill greiða fyrir að hafa hendur í hári fjársvikara. Markaðurinn/AP
Forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins vill greiða fyrir að hafa hendur í hári fjársvikara. Markaðurinn/AP

Mary Schapiro, forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins, segir ekki útilokað að greitt fyrir þær upplýsingar sem leiða til þess að efnahagsbrot verða upprætt.

Þetta sagði forstjórinn á ráðstefnu með viðskiptablaðamönnum í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum á mánudag.

Hún gerir ráð fyrir að um á bilinu 750 þúsund til 1,5 milljón ábendingar geti skilað sér í hús verði greiðsla í boði. Embættið búi hins vegar hvorki yfir tækjum né tólum til að taka við svo miklu magni og verði að vinna að því að keyra upplýsingar saman frá gervöllum Bandaríkjunum til að gaumgæfa einstök mál.

„Þetta gæti gefið okkur kost á að einbeita okkur að einstökum málum,“ sagði Schapiro og bætti við að hún vilji koma í veg fyrir að mál á borð við svikamyllu Bernie Madoffs renni úr höndum embættisins.

Bandaríski skatturinn greiðir fyrir upplýsingar í tengslum við skattalagabrot auk þess sem fjármálaeftirlitið greiðir fyrir uppljóstrun um innherjasvik á hlutabréfamarkaði. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×