Innlent

Svíar heimta að leikurinn gegn Íslandi verði spilaður aftur

Óli Tynes skrifar
Svíar voru í sárum eftir leikinn.
Svíar voru í sárum eftir leikinn.

Svíar eru öskureiðir vegna tapsins gegn Íslandi í handbolta í dag. Þeir heimta að leikurinn verði spilaður aftur, þar sem tekið hafi verið af þeim mark. Sænska blaðið Expressen fullyrðir að Ingemar Linnéll þjálfari Svíanna verði rekinn.

Svíar segja að þegar staðan var 11-13 þeim í vil í fyrri hálfleik hafi Robert Arhenius skorað mark sem dómarinn hafi viðurkennt, en Svíar ekki fengið. Strax í hálfleik hafi þeir kvartað en verið virtir að vettugi.

Arne Elovsson, talsmaður sænska Handknattleikssambandsins segir að í hálfleik hafi staðan verið 13-13 en hefði átt að vera 14-13 þeim í vil. Því muni þeir krefjast þess að leikurinn verði endurtekinn.

Sænska Aftonbladet segir að óvíst sé hvenær málið verði tekið fyrir. En Svíar muni ekki sætta sig við 25-29 tap gegn Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×