Viðskipti erlent

Olíuverðið nálægt 100 dölum á tunnu

Olíuborpallur. Olíuverðið steig hratt í gær og stendur nálægt hundrað dölum á tunnu.
Olíuborpallur. Olíuverðið steig hratt í gær og stendur nálægt hundrað dölum á tunnu.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu rauk í sögulegar hæðir á fjármálamörkuðum í dag og fór yfir 96 dali á tunnu. Verðið hefur aldrei verið hærra og stefnir hraðbyr að 100 dala markinu.

Helstu ástæður verðhækkunarinnar eru þær að olíubirgðir í Bandaríkjunum drógust saman um 3,9 milljónir tunna á milli vikna, þvert á það sem spáð var. Þá eiga aðrir þættir þátt í hækkuninni, svo sem spenna í samskiptum Tyrkja og Kúrda í norðurhéruðum Írak og minni olíuframleiðsla í Mexíkó vegna yfirvofandi hitabeltisstorma.



Í ofanálag hefur lítið dregið úr eftirspurn eftir olíu, bæði eldsneyti og til húshitunar og þykir fátt benda til að úr því ætli að draga eftir því sem á lítur veturinn.

Olíutunnan fór í 96,24 dali á mörkuðum í Asíu en Brent Norðursjávarolía stendur í 91,63 dölum á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×