Viðskipti erlent

Dow Jones í nýju meti

Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum.
Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum.

Dow Jones hlutabréfavísitalan sló enn eitt metið á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum í dag þegar hún hækkaði um 22,75 punkta, 0,17 prósent og fór í 13.287,37 stig. Helsta ástæðan fyrir hækkuninni er yfirtökutilboð álrisans Alcoa í Alcan, annan umsvifamesta álframleiðanda í heimi.

Dow Jones vísitalan hefur hækkað jafnt og þétt síðustu vikurnar og slegið hvert metið á fætur öðru vegna góðra afkomu fyrirtækja í Bandaríkjunum. Síðast sló vísitalan met við lokun markaða vestanhafs á föstudag.

Tilboð Alcoa, sem er fjandsamlegt og þýðir að það er lagt fyrir hluthafa Alcan í stað stjórnar fyrirtækisins, hljóðar upp á 33 milljarða bandaríkjadali, jafnvirði tæpra 2.100 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið nemur 73,25 dölum á hlut og fá hluthafar Alcan 58,6 dali á hlut greidda í peningum en afganginn í hlutabréfum í Alcoa. Þetta jafngildir því að Alcoa greiðir hluthöfum Alcan rétt tæpa 27 milljarða dali, rúmlega 1.716 milljarða íslenskra króna, í beinhörðum peningum.

Stjórn Alcan hefur hvatt hluthafa fyrirtækisins til að halda ró sinni og bíða eftir því að stjórnin hafi tekið tilboðið til umfjöllunar. Gert er ráð fyrir því að tilboðið verði lagt fram á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×