Viðskipti erlent

Gengi bréfa í Sanyo hrundi vegna rannsóknar

Maður gengur fram hjá auglýsingaskilti með nafni Sanyo.
Maður gengur fram hjá auglýsingaskilti með nafni Sanyo. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa í japanska tæknifyrirtækinu Sanyo féll um heilt 21 prósent í kauphöllinni í Tókýó í Japan í dag eftir að fréttir bárust af því að fjármálayfirvöld í Japan hefðu fyrirtækið til rannsóknar. Grunur er sagður leika á að bókhaldsgögn fyrirtækisins hafi verið vísvitandi fölsuð árið 2003 með það fyrir augum að láta líta út fyrir sem fyrirtækið hafi skilað smávegis hagnaði þegar það skilaði í raun taprekstri.

Forsvarsmenn Sanyo hafa staðfest að yfirvöld séu að rannsaka bókhaldsgögn fyrirtækisins en bæta við að fyrirtækið vinni með þeim að því að upplýsa málið.

Fjármálayfirvöld í Japan hafa haft fjölda fyrirtækja til skoðunar síðustu misserin en á meðal þeirra eru vinnuvélaframleiðandinn Komatsu en grunur leikur á að innherjasvik hafi átt sér stað í viðskiptum með hlutabréf í fyrirtækinu fyrir tveimur árum. Þá er skemmst að minnast japanska netfyrirtækisins Livedoor, en réttarhöld standa enn yfir stjórnendum fyrirtækisins sem sagðir eru hafa falsað bókhald fyrirtækisins með það fyrir augum að láta sem fyrirtækið hafi skilað hagnaði þegar raunin var önnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×