Viðskipti erlent

Hráolíuverð á uppleið

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármörkuðum í dag í kjölfar minni birgða af hráolíu í Bandaríkjunum en búist hafði verið við og ákvörðunar samtaka olíuútflutningsríkja, OPEC, að draga úr olíuframleiðslu.

Hráolíuverð hækkaði um 11 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum og fór í 61,29 dali á tunnu. Verðið hækkaði um 3,5 prósent í gær sem er mesta hækkun á olíuverði á einum degi í sjö mánuði. Olíuverðið fór í 61,65 dali á tunnu vestanhafs í gær og hafði ekki verið hærra síðan í byrjun þessa mánaðar.

Í vikulegri skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins, sem birt var í gær, kemur fram að olíubirgðir hafi minnkað í Bandaríkjunum, sem er þvert á fyrri áætlanir. Ein af ástæðunum fyrir samdrættinum er lokun á olíuvinnslustöð úti fyrir ströndum Lousianaríkis í þrjá daga í síðustu viku.

Þá lækkaði verð á Norðursjávarolíu lítillega og fór í 61,73 dali á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×