Viðskipti erlent

Methalli í Bandaríkjunum

Líkur eru taldar á að viðskiptahallinn í Bandaríkjunum verði meiri í ár en í fyrra.
Líkur eru taldar á að viðskiptahallinn í Bandaríkjunum verði meiri í ár en í fyrra.

Viðskiptahallinn í Bandaríkjunum nam 68 milljörðum dala eða rúmum 4.800 milljörðum íslenskra króna í júlí. Um methalla er að ræða en hann skýrist fyrst og fremst af verðhækkunum á innfluttri olíu. Líkur eru á að viðskiptahalli ársins verði meiri en hallinn í fyrra sem nam 717 milljörðum dala eða rúmum 51.100 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptahallinn vestra hafði aldrei verið meiri.

Útflutningur jókst um 5 prósent á milli mánaða í júí en vörur voru fluttar frá Bandaríkjunum fyrir 120 milljarða dali eða tæpa 8.600 milljarða íslenskar krónur. Innflutningur jókst á sama tíma um 1 prósent á milli mánaða og nam 188 milljörðum dala eða rúmum 13.400 milljörðum íslenskra króna.

Þrátt fyrir aukinn viðskiptahalla í Bandaríkjunum minnkaði vöruskiptahalli gagnvart Kína í mánuðinum en hann nam 19,6 milljörðum dala eða tæpum 1.400 milljörðum íslenskra króna. Líkur eru hins vegar á að vöruskipti Bandaríkjanna við Kína verði meiri fyrir árið í heild en í fyrra en þá nam hann 202 milljörðum dala eða 14.400 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×