Viðskipti erlent

Rússneskur ríkisrekstur áhyggjuefni

höfuðstöðvar gazprom OECD hefur áhyggjur yfir vaxandi ríkisrekstri í Rússlandi.
höfuðstöðvar gazprom OECD hefur áhyggjur yfir vaxandi ríkisrekstri í Rússlandi.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur lýst yfir áhyggjum vegna mikils vaxtar rússneska ríkisorkufyrirtækisins Gazprom, sem sagt er hafa einokunarstöðu á markaði fyrir jarðgas í Austur-Evrópu.

Í nýrri skýrslu frá OECD um hagkerfi Rússlands segir ennfremur að mikil stækkun fyrirtækisins og yfirtökur þess síðustu árin komi í veg fyrir heilbrigða samkeppni í Rússlandi og beini vöxturinn sjónum stjórnenda frá kjarnastarfsemi Gazprom.

Þá leggur OECD áherslu á, að gasiðnaðurinn í landinu verði endurskipulagður í samræmi við aðra geira með það fyrir augum að auka samkeppni á heimamarkaði.

Gazprom er í andstöðu við markaðsvæðinguna austur frá, að mati OECD, sem bendir á að hlutur ríkisins í fyrirtækjum í Rússlandi hafi aukist mikið síðastliðin þrjú ár. Hafi ríkið átt fimmtung fyrirtækja í Rússlandi fyrir þremur árum en hann nemur nú 30 prósentum.

„Aukinn ríkisrekstur er skref aftur á bak,“ segir í skýrslu OECD, sem áréttar að rússneska ríkið verði að minnka við hlut sinn í fyrirtækjum í landinu, ekki síst í orkufyrirtækjum, með það fyrir augum að minnka einokunarstöðu Gazprom í Austur-Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×