Viðskipti erlent

Sala eykst hjá Airbus

A380 risaþota frá Airbus.
A380 risaþota frá Airbus.

Asíska flugfélagið Singapore Airlines hefur pantað 29 farþegaflugvélar frá Airbus. Um er að ræða 20 A350 XWB vélar og níu A380 risaþotur, sem eru stærstu farþegaflugvélar í heimi. Kaupvirði þotanna er talið nema jafnvirði 555 milljarða íslenskra króna.

Þetta er fyrsti samningur Airbus við flugfélög um kaup á A350 vélinni, sem er endurbætt flugvél af sömu gerð.

Singapore Airlines keypti 20 Boeing 787-9 farþegavélar fyrir jafnvirði 334 milljarða íslenskra króna í síðasta mánuði.

Samningur Singapore Airlines þykir einkar jákvæður fyrir Airbus og EADS, móðurfélag flugvélaframleiðandans, en fyrirtækið hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna framleiðslutafa á risaþotunni. Tveir æðstu stjórnendur EADS hafa þurft að taka poka sinn vegna þessa auk þess sem gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur lækkað um fjórðung frá því í mars þegar greint var frá töfunum.

Singapore Airlines fær fyrstu A380 þoturnar undir lok ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×