Viðskipti erlent

Hrávöruverð í hæstu hæðum

Gullstangir. Gull, silfur og kopar hækka. Verð á helstu góðmálmum hefur sjaldan eða aldrei verið hærra.
Gullstangir. Gull, silfur og kopar hækka. Verð á helstu góðmálmum hefur sjaldan eða aldrei verið hærra.
Verð á góðmálmum á borð við gull, kopar og silfur heldur áfram að hækka eins og olían. Únsan af gulli fór í 618 dali í gær og af silfri í 13,5 dali. Verð á gulli hefur ekki verið hærra á hrávörumarkaði í New York síðan árið 1980 og leita þarf aftur til ársins 1983 til að finna jafn hátt verð á silfri. Hækkun þessi er meðal annars rakin til óróleika í alþjóðamálum, eins og stöðunnar í Íran, og mats fjárfesta á að aukin verðbólga vegna hækkandi orkuverðs muni leiða til óvissu um efnahagsþróun í alþjóðahagkerfinu. Góðmálmar eru því taldir vera ákjósanleg verðbólguvörn um þessar mundir. Þá er ljóst að mikil eftirspurn er eftir góðmálmum frá Kína en hagkerfið þar óx um tíu prósent á fyrsta ársfjórðungi. Verð á kopar fór í sögulegt hámark í gær þegar verðið á tonni fór í 6.490 dali og hefur tvöfaldast á einu ári. Þá hefur verð á sinki hækkað um 150 prósent á sama tíma. Væntingar á koparmarkaði um minnkandi birgðastöðu hefur valdið verðhækkunum en Codelco, stærsti koparframleiðandi heims, hefur hafnað þeim sögusögnum að dregið hafi úr afköstum við framleiðslu vegna verkfalla námuverkamanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×